Ljósmyndir til söluHvernig ganga viðskiptin fyrir sig?


Þegar þú hefur fundið þér mynd sem þig langar í sendirðu mér línu í með því að smella hér. Þar tilgreinirðu hvaða mynd þú hefur áhuga á, hvaða stærð þú vilt fá hana í og einnig skal taka fram ef þú vilt kaupa eina eintakið ef sá möguleiki er í boði. Einnig er þarna gullið tækifæri til þess að koma á framfæri öllu öðru sem þér liggur á hjarta. Ég tek við greiðslum í gegn um millifærslu eða í peningum, en greiðslan verður að berast fyrirfram. Athugaðu að það hefur komið fyrir að skilaboðin lendi í ruslpóstsíunni minni svo ef svar berst ekki innan sólarhrings má endilega hringa í síma 848-0114 eða senda SMS og minna á póstinn svo ég geti fiskað hann upp úr síunni.


Er eingöngu hægt að fá myndirnar afgreiddar á strigum í blindrömmum?


Það er ekkert mál fyrir mig að afhenda myndirnar á hefðbundnum ljósmyndapappír eða ljósmyndapappír lagðan á kvoðu til að hengja upp án ramma. Verðið myndi þá breytast eftir því sem við á.


Er möguleiki á að fá myndirnar í öðrum stærðum en upp eru gefnar á sölusíðunni?


Já, það er vel hægt svo lengi sem stærðarhlutföllin henta myndinni. Að auki, ef óskað er eftir myndinni í blindramma, þá hlaupa mögulegar stærðir á fimm sentimetrum (t.d. 20, 25, 30, 35...). Það er svo ekki hægt að fá blindrammamyndirnar smærri en 20 cm á smærri kantinn. Að lokum er best að benda á það að verði myndirnar prentaðar mjög stórar þá þarf að stækka þær sem gæti komið niður á upplausninni, en ég hef í höndunum mjög góðan stækkunarhugbúnað svo tapið er eins lítið og það gerist, Þ.e. myndirnar pixlast ekki.


Hvernig striga eru myndirnar prentaðar á?


Myndirnar eru prentaðar á Chromata White striga frá Breathing Color USA. Eftir prentun er myndin síðan varin með Glamour II vörn og er þá hægt að strjúka af myndinni með rökum klút án þess að laska hana.


Hversu lengi þarf ég að bíða eftir myndinni minni?


Biðtíminn getur verið misjafn en að jafnaði ekki lengri en fimm virkir dagar. Traffíkin er mest í kring um jólin og nýárið þannig að það er best að hafa góðan fyrirvara þegar pantað er á því tímabilinu.


Þú segir á forsíðunni að myndirnar séu tilbúnar til innrömmunar, getur þú séð um að redda ramma?


Ég geri rammana ekki sjálfur, en ég gæti svo sem alveg séð um innrömmunina. Mér þætti þó best að fá einhvern með mér sem þekkir til staðarins þar sem myndin á að fara upp því bestu rammarnir falla vel inn í umhverfi sitt OG bera myndina vel. Ég bendi á Rammastúdíó ehf, Ármúla 20, þar hef ég fengið hraða og persónulega þjónustu á sanngjörnu verði.


Geturðu sent myndirnar til mín?


Já, á höfuðbogarsvæðinu ætti ég að geta rúllað með myndirnar sjálfur án endurgjalds, en út á land þarf ég að senda þetta með pósti og verður kaupandi að greiða sendingargjaldið. Ég mun gera mitt besta til að pakka myndunum sem fara í svona sendingar vandlega, en ég get samt ekki ábyrgst að myndin komist ólöskuð til skila eftir að hún er farin úr mínum höndum.


Hvað er málið með þennan dýrari "eintak 1 af 1" möguleika á sumum myndunum?


Sá sem kaupir fyrsta eintakið af ákveðinni ljósmynd getur valið að kaupa "eintak 1 af 1". Þá er viðkomandi í raun að kaupa upp allt upplag myndarinnar og þannig tryggja að sitt eintak sé það eina sinnar tegundar í heiminum. Ég held eftir höfundarréttinum, en mun aldrei prenta fleiri eintök af viðkomandi mynd þetta er því svipað og að kaupa málverk, aðeins eitt eintak er til.


Hver er menntun þín í ljósmyndun?


Ég lærði fyrstu skrefin í ljósmyndun í valáfanga í grunnskólanum mínum, Snælandsskóla. Þennan áfanga kenndi Gunnar V. Andrésson fréttaljósmyndari - þetta var mér mikill heiður og gott veganesti.
Ég tók síðan eitt ár í ljósmyndun í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti hjá Grétu S. Guðjónsdóttur. Hérna var farið rækilega ofan í saumana á listforminu - ómetanleg kennsla hér á ferð.
Ég útskrifaðist svo af listabraut í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, en það nám samanstóð af fjölmörgum listtengdum áföngum sem ég trúi að hafi allir styrkt mig mikið sem ljósmyndara.


Hefurðu unnið til einhverra verðlauna?


Ég hélt þú myndir aldrei spyrja! Ég hef unnið nokkrar ljósmyndakeppnir:

Monochrome Awards 2020 - Heiðurstilnefning í áhugamannaflokki fréttaljósmynda. (Alþjóðleg keppni með vel yfir 40.000 myndum!)
Ljósmyndasamkeppni Raufarhafnar 2019 - 1. sæti.
Ljósmyndamaraþon Nýherja 2017 - 1. sæti.
Iceland Monitor Supermoon 2016 - deildi 2. og 3. sætinu.
Ljósmyndakeppni Morgunblaðsins og Nýherja 2010 - 1. sæti.
Ljósmyndakeppni skólablaðs Háskólans í Reykjavík 2008 - 2. sæti.

Að auki hef ég átt tvær ljósmyndir á sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur - ekki beint verðlaun, en ég er mjög stoltur af því engu að síður! :)